154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

neyðargeðheilbrigðisteymi og fræðsla viðbragðsaðila.

222. mál
[12:21]
Horfa

Flm. (Eva Sjöfn Helgadóttir) (P):

Forseti. Það gleður mig mikið að fá að mæla hér fyrir þessu máli sem stendur mér mjög nærri. Það eru dæmi þess að fólk veikist alvarlega andlega og aðstandendur veigri sér við því að hringja í Neyðarlínuna þar sem þeir óttast að lögreglan mæti á staðinn en viðkomandi þarf fyrst og fremst á geðheilbrigðisþjónustu að halda. Einnig hef ég átt samtöl við lögreglumenn sem upplifa mikinn vanmátt í þessu samhengi þar sem þeir hafa mætt með einstakling sem er e.t.v. mjög veikur andlega á bráðamóttöku geðdeildar og ekki fengið innlögn fyrir hann á geðdeild. Stundum hefur veikum einstaklingi þá verið sleppt aftur og svo kemur útkall nokkru seinna og sá einstaklingur endar á því að gista í fangaklefa en hann ætti að vera á sjúkrahúsi. Það getur vakið upp ýmsar tilfinningar hjá fólki að sjá lögreglumenn í einkennisbúningum og þegar við erum með einstakling sem þarf fyrst og fremst heilbrigðisþjónustu þá þarf fyrst og fremst heilbrigðisstarfsfólk. Það skiptir sköpum í svona tilfellum að fagfólk í heilbrigðisþjónustu mæti á vettvang og það skiptir ekki síður sköpum fyrir lögreglu.

Það hefur verið ákall í samfélaginu eftir auknu aðgengi að faglegri þjónustu, sérstaklega í alvarlegustu tilvikunum. Þess vegna legg ég til að komið verði á fót neyðargeðheilbrigðisteymi til að efla samstarf milli geðheilbrigðiskerfisins og lögreglu og tryggja þannig bæði öryggi notenda þjónustunnar og lögreglu. Slíkt teymi væri skipað heilbrigðisstarfsfólki með sérþekkingu á sviði geðheilbrigðis, vímuefnavanda og skaðaminnkunar. Teyminu verði falið að sinna útköllum og neyðarnúmerinu 112 í þeim tilvikum þar sem grunur leikur á að einstaklingur á vettvangi stríði við geðrænan vanda eða vímuefnavanda. Í dag er mun algengara að lögregla hafi afskipti af einstaklingum með geðrænan vanda eða vímuefnavanda en slíkir einstaklingar eru oft með fjölþættan vanda sem heilbrigðisstarfsfólk er mun betur í stakk búið til að takast á við. Það er þó stundum þannig að sjúkrabíll mætir á staðinn frekar en lögregla en þá eru það ekki sérþjálfaðir starfsmenn í geðheilbrigðismálum.

Forseti. Einstaklingar með geðrænan vanda eru ekki ofbeldisfyllri en gengur og gerist hjá öðrum í samfélaginu. Þeir eru hins vegar tíu sinnum líklegri til að verða fyrir ofbeldi. Vanþekking innan kerfisins sem og innan samfélagsins veldur því hins vegar að lögreglan er oft kölluð til til að aðstoða einstaklinga sem glíma við geðrænan vanda. Í mörgum tilvikum skortir lögreglu hins vegar oft nauðsynlega sérþekkingu, þjálfun eða einfaldlega tíma til að takast á við einstaklinga í þessari stöðu, þar á meðal einstaklinga með geðrofseinkenni. Það getur orsakað frekari áföll fyrir einstakling sem á í hlut og jafnvel gert illt verra. Í öðrum tilvikum getur aðkoma heilbrigðisstarfsfólks einnig verið nauðsynleg þótt ekki sé um eins alvarleg atvik að ræða. Rannsóknir sýna að með snemmtækri íhlutun heilbrigðisstarfsfólks er hægt að fyrirbyggja frekari afbrot eða skaða sem einstaklingur með geðrænan vanda hefði getað valdið í framhaldinu ef hann hefði ekki fengið aðstoð.

Forseti. Mig langar aðeins að tala um reynslu annarra ríkja. Víða erlendis hafa sérstök neyðargeðheilbrigðisteymi gefið góða raun, bæði fyrir einstaklinga með geð- og vímuefnavanda og lögregluna og samfélagið í heild. Í Bresku-Kólumbíu í Kanada hóf lögreglan árið 1978 samstarf við hjúkrunarfræðinga í útköllum sem vörðuðu geðrænan vanda. Síðan hefur samstarf lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks verið ein af grunnstoðum útkallsþjónustu í fylkinu. Í Oregon-ríki í Bandaríkjunum hefur lengi verið starfandi svokallað almannaöryggisteymi. Þegar teymi fær útkall er sendur læknir og heilbrigðisstarfsmaður á geðheilbrigðissviði á vettvang. Verkefnin eru margvísleg, t.d. útköll vegna misnotkunar vímuefna, sjálfsmorðshættu o.fl. Ef útkallið varðar ofbeldisfullan einstakling er óskað eftir stuðningi frá lögreglu. Árið 2019 var aðeins kallað eftir lögreglu í 150 af 24.000 skiptum eða í 0,6% útkalla. Talið er að þetta teymi spari skattgreiðendum 8,5 milljónir bandaríkjadala á hverju ári með því að meðhöndla atvik sem annars hefðu endað á borði lögreglu eða inni á sjúkrahúsum að óþörfu. Í Hamilton í Ontario-fylki í Kanada fækkaði handtökum um 70% eftir að sambærilegu aðgerðateymi var komið á laggirnar árið 2013. Verkefnið gaf svo góða raun að síðan þá hefur verið komið á fót slíkum aðgerðateymum í samstarfi við lögreglu í 90% lögregluumdæma í Ontario-fylki.

Í Svíþjóð hefur sérstakur geðheilbrigðissjúkrabíll verið rekinn frá árinu 2015. Bíllinn er mannaður af tveimur geðhjúkrunarfræðingum og einum sjúkrabílstjóra með sérþekkingu á fyrstu hjálp og krísustjórnun. Verkefnið hefur gefið góða raun. Bæði er sjúklingum betur sinnt með faglegri þjónustu en einnig er það léttir fyrir lögregluna að vita að hún getur kallað til sérfróða aðila ef þörf er á.

Forseti. Við þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið. Í staðinn getum við litið til ríkja sem hafa staðið sig vel og sýnt gott fordæmi á þessu sviði til að betrumbæta þjónustuna hér á landi. Þjálfun lögreglumanna og annarra viðbragðsaðila er mikilvæg. Neyðargeðheilbrigðisteymi leysir ekki eitt og sér allan vandann. Viðbragðsaðilar verða að búa yfir þekkingu til að meta hvort þörf er á að kalla út neyðargeðheilbrigðisteymi eða lögreglu eða bæði. Í þó nokkrum borgum og fylkjum í Kanada og Bandaríkjunum hefur lögreglufólk verið þjálfað af heilbrigðisstarfsfólki og sálfræðingum í að meðhöndla einstaklinga með geðrænan vanda og krísustjórnun í slíkum aðstæðum. Auk þess að þjálfa lögreglufólk er mikilvægt að starfsfólk Neyðarlínunnar fái fræðslu í að meta hvort kalla skuli til lögreglu eða heilbrigðisstarfsfólk þegar þörf er á útkalli. Þar sem þessi teymi hafa starfað hefur dregið verulega úr handtökum og valdbeitingu lögreglu og lögreglufólk upplifir færri áföll og minni streitu í störfum sínum. Þá eru skjólstæðingar teymanna líklegri til að fá þá hjálp sem þeir þurfa. Niðurstaðan er heilbrigðara samfélag sem er öruggara fyrir öll.

Forseti. Mér þykir borðleggjandi að setja á fót slíkt teymi hér. Þörfin er æpandi. Það berast stöðugar fréttir af því hvernig fólk með geðrænan vanda fær ekki þá þjónustu sem það þarf, hvort sem það eru síendurteknar fréttir af fólki sem sent er heim af geðdeild með svefnlyf af því að ekki er pláss fyrir það, af fólki sem stríðir við vímuefnavanda sem mætir of mikilli hörku lögreglu eða af fólki sem lendir í geðrofi og upplifir meiri áföll en þyrfti. Með því að setja á fót slíkt teymi er bæði öryggi einstaklinga í viðkvæmri stöðu betur tryggt sem og öryggi starfsfólks lögreglunnar. Auk þess myndi teymið stuðla að aukinni þekkingu innan lögreglunnar, heilbrigðisstéttarinnar og Neyðarlínunnar.

Teymið kallar vissulega á nýtt fjármagn og reynslan í öðrum löndum af slíkum teymum hefur sýnt að dregið hefur úr óþarfaheilbrigðiskostnaði og úr álagi á lögreglu en ljóst er að lögregla á nú þegar erfitt með að sinna sínum lögbundnu skyldum vegna vanfjármögnunar og mönnunar.

Ég hef trú á því að þetta sé mál sem allur þingheimur getur sammælst um og að heilbrigðisráðherra sjái hag sinn í að leiða það til lykta. Það er mikilvægt að við lágmörkum skaða, beitum meðalhófi í aðgerðum og séum með þjónustu við hæfi hverju sinni. Sinnum öllum hópum með viðeigandi þjónustu hverju sinni eins og aðrir eru byrjaðir að gera fyrir löngu síðan. Tökum önnur lönd til fyrirmyndar, finnum lausnir, sinnum fólki með geðheilbrigðisvanda og vímuefnavanda með skaðaminnkun og meðalhóf í forgrunni.